Lítill hópur auðnutittlinga nærist og hvílist í garði mínum. Það er gaman að fóðra þessa litlu vini og kjörið að æfa sig í að taka myndir af þessum fuglum, þó þeir séu nú kvikir og lítið fyrir að sitja lengi kyrrir.
Dílaskarfur
Seinni hluta janúar fylgdi þessi dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) Reykjadalsá upp undir Reykholt, rúma 30 km frá sjó. Þar lifði hann góðu lífi á laxaseiðum í volgum lækjum við Reykholt. Það voru víst ekki allir jafn ánægðir með þessa veislu og var fuglinn flæmdur í burtu. Eins og sjá má leið honum prýðisvel á svæðinu.